Fréttir
Útskriftarhópurinn við Hjálmaklett. Ljósmyndir: LbhÍ/Steinunn Þorvaldsdóttir

Brautskráning frá Landbúnaðarháskóla Íslands

Síðastliðinn föstudag fór fram brautskráning nemenda frá öllum deildum Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Athöfnin var í Hjálmakletti í Borgarnesi en boðið var til kaffisamsætis á Hvanneyri að athöfn lokinni. Að þessu sinni stóð Salka Einarsdóttir efst á BS prófi með einkunnina 9,02 en hún útskrifaðist úr skógfræði. Efst fyrir BS lokaverkefni stóð Maríanna Ósk Mikaelsdóttir, sem brautskráðist úr landslagsarkitektúr, en verkefni hennar fjallaði um náttúruperluna Kjarnaskóg í Eyjafirði, greining á þáttum sem stuðla að vinsældum útivistarsvæða. Fyrir frábæran árangur á búfræðiprófi stóð efst Kristín Ólafsdóttir. Athöfninni stýrði Guðmunda Smáradóttir. Ragnheiður I. Þórarinsdóttir rektor hélt tölu og afhenti prófskírteini. Ásta Marý Stefánsdóttir söngkona frá Skipanesi flutti nokkur lög í athöfninni við undirleik Viðars Guðmundssonar.