Fréttir
Húsið er eins og fótbolti í laginu. Ljósm. GBF

Gaf skólanum boltalaga boltahús

Við skólaslit í Hvanneyrardeild Grunnskóla Borgarfjarðar fyrr í vikunni nýttu nemendur og starfsfólk skólans tækifærið og kölluðu Guðmund Hallgrímsson fyrrum ráðsmann til sín. Vildu þau sýna honum þakklætisvott. Guðmundur hafði nefnilega nýverið sett upp nýmóðins og einkar glæsilegt boltahús á skólalóðinni. Í frétt frá skólanum segir að Guðmundur hafi fregnað að skólinn væri í vandræðum með geymslu fyrir útidótið sitt eftir að geymslurými innan skólans hafði verið fjarlægt svo hægt væri að stækka anddyri skólahússins. Guðmundur gerði sér lítið fyrir og setti saman þetta glæsilega boltahús sem er, eins og sjá má, mikil listasmíði og raunar hreinasta listaverk. Efniviðurinn eru rafmagnskefli sem Guðmundur sagaði úr og er húsið fullbyggt eins og fótbolti í laginu.