
Boðað til félagsfundar í hestamannafélaginu Borgfirðingi
Boðað hefur verið til félagsfundar í Hestamannafélaginu Borgfirðingi þriðjudaginn 10. júní næstkomandi klukkan 21 í félagsheimili Borgfirðings.
„Fundarefni er, vantrauststillaga borin upp á alla stjórn hestamannafélagsins Borgfirðings. Verði vantraustillagan samþykkt þá fari fram stjórnarkjör allra átta stjórnarsæta til bráðabirgða þar sem nýtt fólk tekur við af fyrri stjórn fram að næsta aðalfundi,“ segir í fundarboði stjórnar.
Eins og greint hefur verið frá í fréttum hér á vef Skessuhorns hefur djúpstæður ágreiningur verið í stjórn félagsins. Hann leiddi til þess að helmingur stjórnar hefur sagt af sér, þar á meðal formaður og varaformaður. Síðastliðinn þriðjudag var síðan þeim sem eftir sitja í stjórn afhent vantraustsyfirlýsing á stjórn frá 54 félagsmönnum sem er nægilegur fjöldi samkvæmt lögum félagsins til að boða verður til fundar og tillagan tekin fyrir af félagsmönnum.