
Skrásetti sögu stærstu ættar á Íslandi
Gunnlaugsstaðaættin úr Borgarfirði komin út á bók
Í október á síðasta ári kom út bókin Gunnlaugsstaðaættin. Hún var prentuð í A4 broti, 192 síður en hana skrifaði Sigurður Oddsson og gaf út í 100 eintökum á 90 ára afmæli sínu 22. október. Á ættarmóti í fyrrasumar kynnti Sigurður bók sína fyrir skyldfólki sínu og seldi í forsölu fyrir framleiðslukostnaði. Sigurður er elsta barnabarn hjónanna Jófríðar Ásmundsdóttur (1881-1977) og Jóns Þórólfs Jónssonar (1870-1959) sem bjuggu á Gunnlaugsstöðum í Stafholtstungum, en bókin er í raun saga þeirra og afkomendanna. Gunnlaugsstaðahjón eignuðust 16 börn sem öll náðu háum aldri. Það var fátítt á þeim árum að ekki voru höggvin skörð í svo stóran barnahóp. Árið 1991 setti Gunnlaugsstaðaættin Íslandsmet í aldri. Þá voru systkinin enn öll á lífi og var lífaldur þeirra á þeim tímapunkti 1215 ár. Þegar yfir lauk varð lífaldur þeirra samanlagt 1412 ár, en fjórtán af sextán þeirra urðu meira en 80 ára, meðalaldurinn var 88 ár, en Ásbjörg Jónsdóttir varð þeirra elst, náði 100 árum og hálfum mánuði betur.

Efri röð frá vinstri: Óskar, Friðjón, Guðmundur, Kristinn, Jófríður, Jón, Oddur, Leifur, Ása og Jón Bjarni eiginmaður hennar.
Neðri röð f.v: Magnús, Gunnlaugur, Svanlaug, Ágústa, Svava, Svanhildur, Lára, Guðjón og Fanney.
Fæddist gamall
Sest var niður í sumarbústað Sigurðar Oddssonar og fjölskyldu hans á einum af heitustu vordögum þessa árs, eða aldarinnar ef því er að skipta. Þau eiga sinn sælureit að Sturlu-Reykjum í Reykholtsdal. Þar byggðu hann og eiginkona hans Elín Andrésdóttir bústað á níunda áratugnum. Elín lést árið 2023 og tileinkar Sigurður bókina minningu hennar. Fyrst barst talið að ættfræðiáhuga sem oft kviknar hjá fólki um og eftir miðjan aldur. „Í mínu tilfelli var það ekki þannig. Ég fæddist gamall í þeirri merkingu. Ég hef alla tíð haft áhuga á ættfræði og mjög ungur fór ég að skrá hjá mér frásagnir og sögubrot af ættmennum mínum. Ég safnaði til dæmis skjölum úr fórum afa og ljósritaði til að eiga af þeim afrit. Mörg þessara ljósrita birti ég í bókinni auk fjölda mynda af ættmennum í leik og starfi. Sjálfur var ég svo lánssamur að fá sem barn að vera í sumardvöl hjá afa og ömmu á Gunnlaugsstöðum. Þá var gjarnan rætt um ræturnar og fortíðina og lagði ég vel við hlustir þegar talið barst að frásögum um fólk og viðburði. Það var því á þessum árum sem áhuginn kviknaði hjá mér fyrir alvöru og ég var því raunar í ríflega áttatíu ár að viða að mér heimildum í þessa bók. Nú finnst mér gleðilegt að hafa náð því að skrá þessi sögubrot og gefa út svo þessar heimildir glatist síður,“ segir Sigurður.
Í búskap lengst af
Sigurður er sonur Odds Halldórs Jónssonar sem var þriðja barn Gunnlaugsstaðahjóna en móðir hans var Svanhildur Sigurðardóttir. „Ég fæddist og ólst upp á Akranesi en tíu ára flytja foreldrar mínir með okkur börnin að Kjaransstöðum í Innri-Akraneshreppi sem nú er hluti af Hvalfjarðarsveit. Þar bjuggu þau í tíu ár en flytja þá austur að Kolsholti I í Villingaholtshreppi í Árnessýslu óþurrkasumarið 1955.“ Sigurður er gagnfræðingur frá Akranesi en búfræði lærði hann á Hólum í Hjaltadal. „Ég var viðloðandi búskap lengi, bjó lengst af í Austurbæ í Villingaholtshreppi,“ segir hann.
Um bókina
Á bókarkápu skrifar Anna Hreindal fósturdóttir Sigurðar nokkur orð: „Gunnlaugsstaðaættin er rit um ættmóðurina og kvenhetjuna Jófríði Ásmundsdóttur og Jón Þórólf Jónsson mann hennar, en þau bjuggu á Gunnlaugsstöðum í Stafholtstungum og eignuðust 16 börn. Af því fólki er Gunnlaugsstaðaættin komin. Rakin er saga og ætt foreldra og skyldmenna Jófríðar og Jóns, en saga þeirra hjóna er samofin íslenskri bændastétt í lok 19. aldarinnar og fram á miðja 20. öldina. Uppátæki og fölskvalaus gleði einkenna Gunnlaugsstaðasystkinin og mamma þeirra hafði ekki síst gaman af gleði og ærslum barnanna. Einnig samvinna og ósýnilegur strengur þeirra á milli alla tíð sem braust út í gleði þegar komið var saman á ný.“
Í bókinni eru fjöldi minningarbrota skráð um það þegar systkinin koma saman og gólffjalir svigna undan dansi á lofti „nýja hússins“ á Gunnlaugsstöðum. Á einum stað í bókinni er birt viðtal úr Borgfirðingi árið 1989 við Guðjón Jónsson frá Gunnlaugsstöðum sem búsettur var á Akranesi. Æskunni lýsir Guðjón með þessum orðum: „Við [börnin] vorum aldrei öll heima að staðaldri, því maður þurfti strax að fara að bjarga sér sjálfur þegar geta var til. Oft í kaupamennsku á næstu bæjum eða nálægum sveitum. En um jólin og á öðrum stórhátíðum reyndum við öll að vera heima og þá var oft glatt á hjalla.“
Reynt að ásælast veiðiréttinn
Þótt saga Gunnlaugsstaðaættarinnar sé einkum um Jófríði, Jón Þórólf og þeirra börn þá rekur Sigurður í bókinni einnig ættir forfeðra afa síns og ömmu. Þannig spannar sagan í raun ríflega 200 ár. Í bókinni er þó einkum verið að segja sögur af fólkinu, uppvexti barnanna, smásögur og ýmsar frásagnir, en einnig fleira sem tengist Gunnlaugsstöðum. Jörðin er landnámsjörð, en lagðist í eyði og var um langt skeið hluti af Guðnabakka, eða þar til árið 1854 að Gunnlaugsstaðir eru endurbyggðir sem sjálfstætt býli en það ár var landi og öllum nytjum skipt samkvæmt skiptagjörð milli Guðnabakka og Gunnlaugsstaða sem gerð var 29. júní 1854. Sigurður rifjar upp í bókinni að í þrígang frá árinu 1940 hafi einhverjir reynt að ásælast veiðirétt Gunnlaugsstaða á þeim forsendum að jörðin ætti ekki land að Þverá. Alltaf hafi það mistekist enda stendur skiptagjörðin óhögguð og mun gera.
Rýr jörð í upphafi
Í bókinni er meðal annars sagt frá því að þegar Jófríður og Jón Þórólfur tóku saman og hófu búskap á Gunnlaugsstöðum hafi jörðin þótt ein lélegasta jörð sveitarinnar. Í frétt um 80 ára afmæli Jóns, sem birtist í Morgunblaðinu 13. júlí 1950, segir m.a. um það þegar þau Jófríður og Jón Þórólfur hófu búskap: „...túnið fóðraði ekki tvær kýr og annar heyskapur snöggar mýrar og holtajaðrar. Hjer voru því slík afkomuskilyrði að erfitt sýndist vera að framfleyta stórum barnahópi, en hjer skeði það undur, sem gefur tilefni til þeirra orða, er hjer fara á eftir: Eftir 26 ára búskap eru börnin orðin 16 og nú, á 80 ára afmæli húsbóndans, eru þau öll á lífi, það yngsta 22 ára – og 34 barnabörn. 14 af börnunum sínum ólu þau að öllu leyti upp heima, aðeins tvö voru tekin í fóstur. Það gefur að skilja af því, sem að framan er ritað, að erfitt hefur verið að ala stóran barnahóp upp á Gunnlaugsstöðum eins og þeir voru, en þetta gerðu hjónin án þess að njóta til þess nokkurs styrks.“
Segja má að í ljósi þessarar lýsingar á Gunnlaugsstöðum við upphaf búskapar Jófríðar og Jóns Þórólfs þar, sé það einkar athyglisvert að í dag, 123 árum síðar, að á Gunnlaugsstöðum er rekið eina kúabúið sem eftir er í Stafholtstungum, með nýlegu fjósi og mikilli ræktun. Þar býr nú Þórður Einarsson, fóstursonur Guðmundar Jónssonar fyrrum bónda sem var fjórði í systkinaröð Gunnlaugsstaðasystkina, en Þórður tók við jörðinni af fóstra sínum og býr þar ásamt sambýliskonu sinni Jórunni Guðsteinsdóttur og syni Þórðar; Guðmundi Eggerti.
Endurprentað ef eftirspurn verður
Sigurður Oddsson hefur skrásett sögu ættarinnar af alúð og vandvirkni. Studdist hann við minningar, verandi elsta barnabarnið, aflaði fanga á skjalasöfnum, rifjar upp viðtöl úr blöðum og tók auk þess sjálfur viðtöl við samferðafólk sitt. Þá segir hann í samtali við blaðamann: „Þegar ég skrifa bókina er ég að þakka fyrir mig. Þakka fólkinu fyrir góðan aðbúnað og fræðslu í uppeldinu. Það reyndist mér dýrmætt,“ segir hann.
Sigurður færði blaðamanni Skessuhorns 97. af hundrað eintaka útgáfu sinni frá því í fyrrahaust. Hann kvaðst þakklátur fyrir ef sagt yrði frá ritinu enda upplagið nú á þrotum og íhugar hann að láta endurprenta hana, en segir að fyrst verði þó fólk að leggja inn pöntun og staðfesta vilja til kaupa. Bókin verður seld á kostnaðarverði, sem er 10-11 þúsund krónur. Þar sem hann er ekki sjálfur við tölvu óskar hann eftir að pantanir berist á netfang fósturdóttur hans Önnu Hreindal: hreindalanna@gmail.com Ef nánari upplýsinga er óskað er Anna með síma 864-4170, en sími Sigurðar er 898-4809.
Ljóst er að bókin um sögu þessarar stóru og glaðværu ættar frá Gunnlaugsstöðum er fjársjóður sem slík. Hana ættu allir af ættinni að eignast og varðveita þannig einstaka sögu.