Fréttir

Hætt við íhlutun UMSB í málefni hestamannafélagsins

Vantraust lagt fram

Til stóð að á morgun, fimmtudaginn 5. júní, yrði fundur í hestamannafélaginu Borgfirðingi, þar sem eina málið á dagskrá yrði kosning nýrrar stjórnar. Eins og fram kom í frétt hér á vefnum á sunnudaginn var það Bjarney L Bjarnadóttir framkvæmdastjóri UMSB sem boðaði til fundarins í ljósi þess að helmingur stjórnar hestamannafélagsins hefur látið af stjórnarstörfum, þar á meðal formaður félagsins og varaformaður. Þessi íhlutun UMSB var í hæsta máta umdeild hjá hluta hestamanna og hefur Bjarney nú tilkynnt að ekkert verði af fyrirhuguðum fundi né frekari íhlutun héraðssamandsins í málefni Borgfirðings.

„Félagsfundur sem boðaður var nk. fimmtudag mun ekki fara fram,“ segir í þeirri tilkynningu. „Fundarboð var sett fram í góðri trú og talið þjóna hagsmunum félagsins og vill stjórn UMSB biðjast afsökunar á að hafa tekið fram fyrir hendurnar á sitjandi stjórn hestamannafélagsins Borgfirðings sem hefur það hlutverk að boða félagsfundi og stjórnarkjör. Stjórn UMSB óskar hestamannafélaginu Borgfirðingi velfarnaðar í sínum störfum og ítrekar jafnframt að sambandið mun eftir sem áður leggja sig fram við að sinna sínu lögbundna hlutverki gagnvart sínum aðildarfélögum.“

Vantraust borið fram

Í gær, 3. júní, var ritara hestamannafélagsins Borgfirðings afhent vantraustsyfirlýsing á stjórn félagsins sem 54 einstaklingar, ríflega tíundi hluti félagsmanna, rita undir. Samkvæmt lögum Borgfirðings ber eins fljótt og auðið er að kalla til félagsfundar. Bréfið var sent Skessuhorni en í því segir orðrétt:

„Til stjórnar hestamannafélagsins Borgfirðings

Meðfylgjandi vantraustsyfirlýsing á stjórn hestamannafélagsins Borgfirðings, með undirritun yfir 10% félagsmanna og ósk um að haldinn verði félagsfundur, alls 54 undirritanir á fimm síðum. Við förum fram á að stjórn boði félagsfund án tafar, eigi síðar en 10. júní næstkomandi. Skal hann auglýstur með fimm daga fyrirvara eins og lög félagsins gera ráð fyrir. Í auglýsingu fundarins skal koma fram fundardagskrá sem inniheldur að tillaga um vantraust á stjórn félagsins verði borin upp á fundinum. Einnig skal koma fram í fundardagskrá að verði vantrauststillaga samþykkt fari fram stjórnarkjör allra átta stjórnarsæta til bráðabirgða fram að næsta aðalfundi. Borgarnesi 3. júní 2025.“

Hætt við íhlutun UMSB í málefni hestamannafélagsins - Skessuhorn