Fréttir
Viktor Elvar Viktorsson rekstrarstjóri og Jón Trausti Ólafsson forstjóri Öskju við opnun Öskju Vesturlandi í apríl á síðasta ári. Ljósm. Skessuhorn/vaks

Askja lokar brátt nýlegri starfsstöð sinni á Akranesi

Bílaumboðið Askja hefur ákveðið að loka starfsstöð fyrirtækisins við Innnesveg 1 á Akranesi. Bílasalan verður starfrækt út þennan mánuð en verkstæðinu verður lokað nú í vikulokin. Söluumboðið ásamt þjónustuverkstæði hefur verið til húsa við Innnesveg 1 frá því í apríl 2024 í þeim hluta hússins þar sem Bílver hafði verið frá því húsið var byggt. Fram kemur í tilkynningu að Askja hefur endurnýjað samning við Bílaverkstæði Hjalta um þjónustu við bíla á Akranesi. „Ákvörðunin er hluti af einföldun reksturs og um leið vegna áherslu á fjárfestingu í aukinni þjónustu og aðstöðu hjá Bílaverkstæði Hjalta,“ segir í tilkynningu frá Öskju.

„Askja mun samhliða loka starfsstöð sinni á Akranesi, sem opnuð var í apríl 2024 fyrir sölu á nýjum og notuðum bílum ásamt þjónustu fyrir bíla frá Öskju. Við teljum farsælast að sinna þjónustu við viðskiptavini á Vesturlandi í gegnum traustan samstarfsaðila sem þegar hefur byggt upp aðstöðu og þekkingu á okkar vörumerkjum og þar starfar öflugur hópur bifvélavirkja, en auk þess er Askja þessa dagana að byggja upp tvö stór önnur verkefni á Krókhálsi og í Reykjanesbæ,“ segir Viktor Elvar Viktorsson, rekstrarstjóri Öskju á Vesturlandi í tilkynningu. Húsnæðið við Innnesveg 1 er í eigu Löðurs, sem hyggst opna þar bílaþvottastöð. „Á þessari stundu teljum við ekki hagstætt að ráðast í byggingu nýs húsnæðis og hentugt húsnæði er ekki aðgengilegt í dag,“ bætir Viktor við.

Þjónusta á Smiðjuvöllum

Þá segir í tilkynningu að Bílaverkstæði Hjalta hefur lengi verið traustur samstarfsaðili Öskju á Akranesi og flutti nýverið í glæsilega og vel búna aðstöðu við Smiðjuvelli. „Með samstarfinu verður áfram boðið upp á þjónustu fyrir öll helstu vörumerki Öskju: Kia, Honda og Mercedes-Benz. Við hlökkum til að efla samstarfið við Öskju enn frekar og bjóða núverandi sem og nýjum viðskiptavinum upp á framúrskarandi þjónustu,“ segir Hilmir Hjaltason, þjónustustjóri hjá Bílaverkstæði Hjalta. „Við höfum fjárfest í tækjabúnaði og þjálfun starfsfólks sem tryggir faglega og góða þjónustu.“

Viðskiptavinir á Vesturlandi eiga áfram greiðan aðgang að sérhæfðum verkstæðum Öskju að Krókhálsi 11–13 í Reykjavík. Þar er boðið upp á fjölbreytta þjónustu, meðal annars bílaleigu á meðan þjónusta fer fram, sem og sjálfsafgreiðslu sem opin er allan sólarhringinn.

Sigurður Valgeir Eiðsson, sem sinnt hefur þjónustunni á Akranesi, mun taka við sem tæknimaður fyrir Kia atvinnubíla hjá Öskju í Reykjavík. Ný lína rafmagnssendibíla frá Kia verður frumsýnd síðar á árinu, og Sigurður tekur þátt í þeirri innleiðingu.

„Við þökkum kærlega öllum sem leituðu til okkar með kaup eða sölu á bílum. Við vonum að upplifunin hafi verið jafn góð fyrir viðskiptavini og hún hefur verið fyrir okkur. Bílasalan á Akranesi verður starfrækt til 1. júlí, og við eigum von á góðum lokaspretti í sölunni,“ segir Viktor að lokum.