
Líf og fjör á VIT-HIT leikunum á Akranesi
Um liðna helgi fóru VIT-HIT leikarnir í sundi fram í Jaðarsbakkalaug. Góð þátttaka var á mótinu í ár en alls tóku 322 krakkar þátt frá tíu félögum. Það var því líf og fjör í lauginni um helgina enda stungu sundkrakkarnir sér alls 1519 sinnum til sunds. Í Grundaskóla gistu um 250 sundmenn, þjálfarar og fararstjórar og í skólanum borðuðu einnig sundmenn og starfsmenn mótsins. Sundfélag Hafnarfjarðar reyndist stigahæsta félagið að loknu móti og hlaut einnig titilinn „prúðasta liðið.“ Þá áttu margir sundmenn glæsilega spretti, bættu persónuleg met eða kepptu í fyrsta sinn á alvöru sundmóti – reynsla sem mun efla þau til framtíðar.