
F.v. Anna Kristín Magnúsdóttir, Heiðrún Hallgrímsdóttir, Elsa Björnsdóttir, Selma Rut Þorkelsdóttir, Lilja Magnúsdóttir og Kristín Alma Sigmarsdóttir sem tóku við viðurkenningunni. Ljósm. tfk
Köttur úti í mýri heiðraðar fyrir framlag til barnamenningar
Grundfirski leshópurinn Köttur úti í mýri fékk viðurkenningu á dögunum fyrir framlag sitt til barnamenningar á Íslandi. Leshópurinn hefur verið ötull við að stuðla að lestri barna síðan hann var stofnaður. Viðurkenningin kallast Vorvindar IBBY á Íslandi og var afhent við hátíðlega athöfn á Borgarbókasafninu í Grófinni. IBBY á Íslandi eru frjáls félagasamtök áhugamanna um barnabókmenntir og barnamenningu og er hluti af alþjóðlegum samtökum sem voru stofnuð árið 1953 í Sviss og meðal stofnfélaga var engin önnur en Astrid Lindgren. Á hverju ári velja samtökin Vorvinda sem fá viðurkenningu fyrir störf sín í þágu barna.