
Viðvaranir fyrir Vesturland taka gildi á þriðjudagsmorgun
Veðurstofan hefur uppfært viðvaranir vegna yfirvofandi norðanstorms og hríðarveðurs á morgun og þriðjudag. Gular viðvaranir taka fyrst gildi á miðhálendinu og á Norður,- Austur- og Suðausturlandi eftir því sem líður á morgundaginn. Gul viðvörun fyrir Vesturland tekur gildi kl. 6 að morgni þriðjudags. Öllu verra veðri er spáð fyrir norðan og austan, þar sem viðvaranir eru appelsínugular. Þar má búast við meiri kulda, hvassari vindi og hríðarveðri. Fólk er hvatt til að fylgjast vel með veðurspám, í ljósi þess að þær taka ört breytingum.