Fréttir
Magnús Guðmundsson verkstjóri hjá Stéttafélaginu sem annast viðgerðir á Suðurgötunni. Ljósm. mm

Suðurgata lokuð í nokkra daga vegna viðgerða

Lokað er fyrir umferð um hluta Suðurgötu á Akranesi vegna viðgerða sem tengjast regnvatnslögnum undir götunni. Einungis tvö ár eru síðan skipt var um allar lagnir en nýverið kom í ljós að ekki hafði verið valið rétt efni til að leggja undir rörin, sem eru úr plasti. Því þurfti að grafa götuna upp á tveimur mislöngum köflum, 45 metrum og fimm metrum. Sett er nýtt og hreinna efni undir lögnina, þjappað og skipt um rörin. Magnús Guðmundsson er verkstjóri hjá Stéttafélaginu sem annast viðgerðir. Hann kveðst í samtali við Skessuhorn vongóður um að verkinu verði lokið eftir viku, í lok næstu viku.

Magnús sagði alltaf mikilvægt þegar unnið er við mannvirki hverju nafni sem þau nefnast að grafið sé niður á fast og réttur undirburður notaður, hvort sem það eru lagnir við hús eða önnur mannvirki. Á þessum kafla á Suðurgötunni var notað jarðefni úr Hólabrú undir regnvatnslögnina sem ekki var nægjanlega hreint. Því skolaði fína efnunum úr og lögnin seig. Þetta kom í ljós þegar lögnin var nýverið mynduð. Glöggt mátti sjá á rörunum sem búið var að skipta út að þau voru orðin bjúglaga og skemmd. Magnús sagði að jarðlögin undir Akranesi séu jökulruðningur og svo klettaranar en lagði áherslu á að alltaf er mikilvægt að grafið sé niður á fast og rétta undirlagið notað.

Magnús vildi koma á framfæri þakklæti sínu til íbúa við Suðurgötu sem sýnt hefði þessu raski einstakt umburðarlyndi, í ljósi þess að ekki er akfært að öllum húsum eins og stendur og stutt síðan gatan var lokuð um tveggja ára skeið.

Skipta var um regnvatnslögnina á þessum 45 metra kafla.

Skipt var einnig um lögnina við Suðurgötu 117.

Skemmd regnvatnslögn og plastið orðið bjúglaga.

Suðurgata lokuð í nokkra daga vegna viðgerða - Skessuhorn