
Fengu að fræðast um búnað slökkviliðs og sjúkrabílinn – myndasyrpa
Það var líf og fjör á planinu við slökkvistöðina á Akranesi í morgun. Þá mættu nemendur úr útskriftarhópum leikskólanna á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit á árlega vorhátíð sem nefnist Logi og Glóð. Hver leikskóli fékk sinn klukkutíma. Starfsmenn Slökkviliðs Akraness og Hvalfjarðarsveitar auk áhafnar á einum sjúkrabíl frá HVE sýndu börnunum tæki og tól viðbragðsaðila. Börnin fengu að taka virkan þátt, m.a. að sprauta í mark úr brunaslöngunum, skoða sjúkrabílinn hátt og lágt að innan og setjast undir stýri. Þá var þeim sýndur búnaður í viðbragðsbíl slökkviliðsins, meðal annars klippur sem notaðar eru á bíla þegar slys verða, stigabíllinn var skoðaður, nýr fjögurra manna buggy bíll slökkviliðsins vakti lukku og annar búnaður. Börnunum var raðað í hópa og stillt og prúð biðu þau í pollagöllunum sínum þar til röðin kæmi að þeim. Við leyfum meðfylgjandi myndum að tala sínu máli, en þarna eru börnin á Teigaseli og Garðasel á myndunum og Akrasel var svo næst í röðinni. Að endingu voru svo væntanlegir útskriftarhópar frá Vallarseli og Skýjaborg í Hvalfjarðarsveit.