
Orkuveitan með myljandi hagnað
Orkuveitan (Orkuveita Reykjavíkur) skilaði 4,5 milljarða króna hagnaði fyrstu þrjá mánuði ársins samkvæmt árshlutauppgjöri samstæðunnar. Á sama tímabili árið 2024 var hagnaðurinn 2,9 milljarðar króna. Innan samstæðunnar eru auk móðurfélagsins; Veitur, Orka náttúrunnar, Ljósleiðarinn og Carbfix. Tekjur fyrirtækjanna í samstæðunni jukust á tímabilinu um 7% frá fyrra ári og gjöld lækkuðu um sama hlutfall. Þrátt fyrir að launakostnaður hafi aukist milli ára þá lækkaði annar rekstrarkostnaður og á ársfjórðungnum fékk Orka náttúrunnar endurgreiddar um 450 milljónir króna vegna leiðréttingar á gjaldskrá Landsnets. Veltufé frá rekstri nam 9,4 milljörðum króna en var átta milljarðar á sama tímabili 2024. Fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum héldust svipaðar milli ára og námu nú 6,4 milljörðum króna. Mestar voru þær hjá Veitum, einkum tengdar eflingu hitaveitna til skemmri og lengri tíma.