
Tekist á um veiðigjald í umræðuþætti frá Grundarfirði
Á þriðjudagskvöldið síðasta var sýndur í Ríkissjónvarpinu í beinni útsendingu umræðuþáttur sem nefnist Torgið. Var hann tekinn upp í Samkomuhúsinu í Grundarfirði. Segja má að í þættinum hafi stálin stinn mæst; Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra og Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Tókust þau á um fyrirhugaða hækkun ríkisstjórnarinnar á veiðigjaldi. Fyrirhugaðar breytingar lagði atvinnuvegaráðherra fram á þingi í vor. Mikið var deilt um frumvarpið á Alþingi, raunar svo mikið að met var slegið en ekkert mál annað hefur verið rætt lengur í fyrstu umræðu þingsins. Í ljósi þess að hitabylgja gekk yfir landið daginn sem þátturinn var sýndur, voru fjölmargir landsmenn úti að njóta góða veðursins. Í takti við það má segja að verulega hafi hitnað í kolunum innan dyra í samkomuhúsinu. Það er því ástæða til að segja stuttlega frá hvað fram fór á fundinum, enda um gríðarlega mikilvægt hagsmunamál að ræða fyrir útgerð og fiskvinnslu á landsbyggðinni. Í samkomuhúsinu voru gestir og kom fram með léttri könnun að meirihluti þeirra var andsnúinn frumvarpi ráðherrans. Kannanir hafa engu að síður sýnt að meirihluti landsmanna er fylgjandi frumvarpinu og jókst sá stuðningur í kjölfar umdeildra auglýsinga sem SFS keypti og hefur sýnt í sjónvarpi.