Fréttir

Sláttur hafinn í Borgarfirði

Í dag var sleginn fyrsti bletturinn af heimatúninu á Norður-Reykjum í Hálsasveit. Þau hjónakornin og bændurnir Bjartmar Hannesson og Kolbrún Sveinsdóttir hafa oft verið með þeim fyrstu á landinu til að hefja slátt, en aldrei áður í þeirra búskapartíð hefur sláttur hafist svo snemma sem 19. maí. „Þetta er ekki stór blettur, en lykt af nýslegnu grasi; „I love it,“ skrifaði Kolla með meðfylgjandi mynd. Vel er hægt að ímynda sér töðuilminn í gegnum myndina. Óvenju mikill hiti í Borgarfirði síðustu daga samhliða þokkalegri rekju í jörð eftir vætutíð í vor gerir það nú að verkum að allur gróður er mánuði fyrr á ferðinni en í meðal ári. Ef sprettutíð verður áfram með sama móti má vel búast við því að fleiri bændur fylgi þeim Bjartmari og Kollu eftir og brýni ljáina um mánaðamótin.

Sláttur hafinn í Borgarfirði - Skessuhorn