
Haddi, Solla, Guðjón og Ómar voru kát á kajanum. Fjær er Bessi Bjarnason sem rær með Hadda á Inga Rúnari AK.
Bátarnir komu að landi hver af öðrum – myndasyrpa
Það var stöðugur straumur strandveiðibáta sem lagði að gömlu Akraborgarbryggjunni á Akranesi í dag þegar blaðamaður Skessuhorns leit þar við um nónbil. Í blíðskapar veðrinu var krananum stýrt af öryggi af Guðjóni Sveinbjörnssyni sem hífði körin úr bátunum og var sjómönnum til aðstoðar. Guðjón hefur alla sína tíð unnið við fiskvinnslu. Hann er nú í föstu hlutastarfi sem kranastjóri. Það að hjálpa trillukörlunum að landa segir hann gefa sé tengingu við fiskinn og lífið við höfnina. Ómar Hafsteinn Matthíasson fiskmarkaðsstjóri var síðan á lyftaranum, gætti þess að þorskurinn væri rétt flokkaður eftir þyngd, skráði, ók með aflann í hús og kom til baka með ís fyrir næstu sjóferð. Allt gekk þetta smurt fyrir sig enda vanir menn á ferð.