
Rennibrautin á Jaðarsbökkum opnuð líklega á ný í júní
Eins og fastagestir Jaðarsbakkalaugar á Akranesi hafa vafalaust tekið eftir að þá hefur vatnsrennibrautin í lauginni verið lokuð í um níu mánuði. Daníel Sigurðsson Glad, forstöðumaður íþróttamannvirkja og íþróttamála hjá Akraneskaupstað, segir að í viðhaldsviku sem fram fór í ágúst á síðasta ári hafi rennibrautin verið lagfærð en vegna mistaka skemmdist ytra byrðið í henni og það kom gat á hana. Svo átti að laga það en vegna þess að veðrið var vont hefur verið erfitt að koma því í verk í vetur og einnig að fá aðila til að taka verkið að sér. „Við erum reyndar komin með aðila sem er búinn að panta viðgerðarefni og réttan lit á brautina þannig að væntingar okkar standa til þess að hún verði tilbúin til notkunar í júní. En það miðast við það að veðrið verði hliðhollt okkur og við vonum það besta.“