Fréttir
Snæfellsnesvegur við Kaldármela er einn þeirra vega sem sveitarstjórnarfólk á Vesturlandi hefur lagt áherslu á að verði lagfærðir. Einnig Vestfjarðavegur um Dali. Ljósm. mm

Peningar til viðgerðar vega á Vesturlandi boðaðir í fjáraukalögum

Á næstu dögum verður frumvarp fjármálaráðherra til fjáraukalaga lagt fram á Alþingi. Fram kom í viðtali við Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra í kvöldfréttum RÚV í gær að ríkisstjórnin hyggist verja auknu fjármagni til vegakerfisins og lögreglunnar og til að tryggja að meðferðarúrræðum verði ekki lokað í sumar. Frumvarp til fjáraukalaga mun hljóða upp á fimm milljarða króna. „Við erum til dæmis að setja þrjá milljarða til viðbótar í vegakerfið, með sérstaka áherslu á Vesturland, en líka önnur kjördæmi,“ sagði Kristrún. Um skiptingu þeirrar úthlutunar ræddi Kristrún ekki og fréttamaðurinn spurði ekki nánar út í það. Samkvæmt upplýsingum frá Ólafi Adolfssyni fyrsta þingmanni Norðvesturkjördæmis nú í morgun er honum sem þingmanni ekki kunnugt um í hvaða verkefni þessum peningum til vegamála á Vesturlandi verður varið.

Peningar til viðgerðar vega á Vesturlandi boðaðir í fjáraukalögum - Skessuhorn