
Ákærðir fyrir sérlega hættulega líkamsárás
Tveir ungir menn hafa verið ákærðir fyrir að ráðast á mann á þrítugsaldri í skógræktinni við Klapparholt á Akranesi fyrir réttu ári síðan. Fréttavefurinn ruv.is greindi fyrst frá. Fram kemur í fréttinni að maðurinn hafi hlotið mörg beinbrot í árásinni sem var sögð sérstaklega hættuleg. Annar mannanna er á tuttugasta ári og hinn 22ja ára. Yngri maðurinn sparkaði ítrekað í efri búk og höfuð brotaþola, að því er fram kemur í atvikalýsingu í ákærunni. Sá eldri sló þolanda ítrekað í líkamann með óþekktu áhaldi. Maðurinn féll í jörðina og þar héldu mennirnir árásum sínum áfram. Hann hlaut margs konar áverka og meiðsli, meðal annars brutu þeir í honum kinnbein, rifbein og fimm tennur auk þess sem hann var með fjölmarga skurði víða um líkamann. Samkvæmt heimildum Skessuhorns um árásina komst fórnarlambið við illan leik í hús í nágrenninu og gat gert vart við sig.