
Ýmis óhöpp í umferðinni
Reiðhjólaslys varð á Snæfellsnesi í vikunni sem leið. Þar féll einstaklingur af reiðhjóli og hlaut höfuðáverka. Viðkomandi var ekki með hjálm en eftir skoðun voru meiðsli ekki talin alvarleg. Bifreið hafnaði utan vegar á Snæfellsnesi. Bifreiðin skemmdist mikið en enginn slasaðist. Ekið var á skilti og ljósastaur í Borgarnesi en ekki urðu slys á fólki. Þá fór bifreið út af og valt á Snæfellsnesi, tveir erlendir ferðamenn voru í henni og voru þeir fluttir á brott til aðhlynningar með sjúkrabifreið en meiðsli voru ekki talin alvarleg. Harður árekstur varð á Holtavörðuheiði þegar bifreiðar úr gagnstæðri átt rákust saman. Fram kom hjá ökumanni annarrar bifreiðarinnar að hann hefði líklega sofnað við aksturinn með þeim afleiðingum að bifreiðin fór yfir á rangan vegarhelming og lenti framan á hinni. Ökumenn fundu fyrir eymslum, þeir voru ekki taldir alvarlega slasaðir en bifreiðarnar skemmdust mikið.