
Það er vorhret á glugga – napur vindur sem hvín
Þessi tilvitnun í Maístjörnuna eftir Halldór Kiljan Laxness á vel við í dag. Í gærkvöldi tók veður að breytast um allt vestanvert landið þegar lægð kom upp að landinu. Hún dró með sér kalt loft og talsverð úrkoma fylgdi einnig þannig að ekki einvörðungu gránaði í fjöll í nótt heldur víða niður á láglendið einnig. Veðurstofan er með gula viðvörun í gildi í dag enda venju fremur kalt og hryssingslegt miðað við árstíma og færð slæm á fjallvegum fyrir bíla á sumardekkjum. Í dag er því spáð að verði suðvestan 8-15 m/s og slyddu eða -snjóél, einkum á fjallvegum. Lítið skyggni verður í éljum, jafnvel krapi og hálkublettir, og því æskilegt að bílar á ferð séu vel búnir til vetraraksturs. Viðvörun vegna veðurs fellur niður þegar líða tekur á kvöldið. Áfram verður þó kalt um helgina. Á morgun verður vindátt vestlægari, hægari og úrkomuminna síðdegis. Hiti 1 til 12 stig og mildast austur á landi. Heldur hlýnar í veðri á sunnudag.