Fréttir
Við Borgarbraut 55 er búið að reisa húseiningar neðri hæðar í nýju fjölbýlishúsi. Ljósm. hig

Reisa og grafa í Borgarnesi

Framkvæmdir eru víða í gangi í Borgarnesi um þessar mundir. Þrjú fjölbýlishús eru nú í byggingu, stórframkvæmdir við nýtt íbúðahverfi, framkvæmdir við Vallarás, rannsóknir Vegagerðar vegna færslu þjóðvegar upp með landi og svo mætti lengi telja. Úti í Brákarey er byrjað að grafa upp í kringum framkvæmdasvæðið, en niðurrif er framundan á mörgum húsunum sem áður tilheyrðu sláturhúsi og frystihúsi. Búið er að loka fyrir umferð um framkvæmdasvæðið. Á íþróttasvæðinu í Borgarnesi virðist undirbúningur vera langt kominn til að hefja að reka undirstöður undir knatthúsið. Við Borgarbraut 55 er búið að reisa húseiningar að fyrstu hæð og við Kveldúlfsgötu 30 er ísetning á gluggum vel á veg komin. Framkvæmdir eru svo víðar um bæinn, meðal annars við nýja íbúðahverfið ofan við hús Kaupfélagsins. Mörg ár eru síðan svo mikið var umleikis í bænum.

Reisa og grafa í Borgarnesi - Skessuhorn