Fréttir
Pakkhúsið í Ólafsvík er nú 181 árs gömul bygging og eitt elsta verslunarhús landsins. Ljósm. úr safni Skessuhorns.

Eitt elsta verslunarhús landsins boðið til leigu

Snæfellsbær auglýsir nú eftir áhugasömum rekstraraðila að Pakkhúsinu í Ólafsvík með umsóknarfresti til næstu mánaðamóta. Húsið á sér merka sögu og skal viðeigandi rekstur taka mið af sögu hússins og safni á efri hæðum þess. Pakkhúsið í Ólafsvík er gamalt verslunarhús, byggt árið 1844. Það er eitt fárra verslunarhúsa frá 19. öld sem stendur enn og var friðað 31. ágúst 1970. Í upphafi gegndi Pakkhúsið hlutverki birgðageymslu en síðar var m.a. rekin verslun í því. Þar spurði fólk frétta, skiptist á skoðunum og dreypti á kaupmannsbrennivíni sem geymt var undir búðarborðinu. Þess má geta að Ólafsvík telst elsti verslunarstaður landsins, en árið 1687 gaf konungur út tilskipun þar sem hann viðurkenndi Ólafsvík sem verslunarstað.

Eitt elsta verslunarhús landsins boðið til leigu - Skessuhorn