
Sjósettu Elluna í blíðskaparveðri í gærmorgun
Í gær var hátíðisdagur í Borgarnesi. Þá var Ellan sjósett og siglt inn á Brákarsundið þar sem hún verður bundin við ból sitt í sumar. Fyrir marga heimamenn í Borgarnesi markar koma Ellunnar upphaf sumars. Líklega er svo báturinn myndaður hlutfallslega jafn mikið af ferðamönnum og Kirkjufellið í Grundarfirði. Þessi litli en fallegi bátur er í eigu Stórútgerðarfélags Mýramanna. Eigendur þess eru Borgnesingarnir og frændurnir Sigurður Halldórsson og Arinbjörn Hauksson auk Péturs Geirssonar og tala þeir ávallt um Elluna sem skip en ekki einhvern smábát enda er hún í eigu stórútgerðarfélags, að sögn frændanna, og ekki hægt að ætlast til neins minna. En það er bágt ástandið hjá stórútgerðunum eins og landsmenn þekkja. „Þrátt fyrir erfiðar aðstæður hjá stórútgerðinni þessa dagana sem allir þekkja; gegndarlaus græðgi stjórnvalda og himinhá laun norskra leikara, þá tók Stórútgerðarfélag Mýramanna þá djörfu ákvörðun að setja Elluna snemma á flot þetta árið. Það er alveg óvíst að það verði nokkur hagnaður af útgerðinni þetta árið. En ánægjan er okkar. Gleðilegt sumar,“ sagði Sigurður Halldórsson útgerðarstjóri.