
Jens Heiðar, Leó og Sigurður Þór. Ljósm. mm
Héldu allsherjar brunaæfingu í FVA
Stór brunaæfing fór fram í húsnæði Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi í morgun. Skólinn var rýmdur og söfnuðust nemendur og starfsfólk saman á skilgreindu svæði þar sem talning fór fram. Slökkvilið Akraness og Hvalfjarðarsveitar skipulagði æfinguna og vissi starfsfólk fyrirfram ekki hvenær hún yrði, einungis að til stæði að halda hana. Líkt var sem mest eftir raunverulegum aðstæðum ef eldur kemur upp og framleiddur reykur til að allt væri sem trúverðugast. Af þeim sökum fékk Skessuhorn ábendingu frá íbúa í nágrenni skólans sem taldi að kviknað væri í þegar viðkomandi sá reyk stíga upp.