
Endurskoðað frumvarp um veiðigjald lagt fram á Alþingi
Frumvarp Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra um leiðréttingu á veiðigjöldum hefur verið dreift á Alþingi. Frumvarpsdrögin voru birt í samráðsgátt frá 25. mars sl. til 3. apríl sl. Samtals bárust 112 umsagnir frá einstaklingum, fyrirtækjum, hagsmunaaðilum, sveitarfélögum, félagasamtökum og stofnunum. „Meirihluti umsagna var jákvæður gagnvart þeim tillögum sem kynntar voru í drögunum. Frá sveitarfélögum komu nokkrar umsagnir þar sem reifaðar voru áhyggjur um að hækkunin væri of brött og skortur væri á greiningum á áhrifum frumvarpsins. Tilgangur frumvarpsins er að gera breytingar á veiðigjöldum sem greidd eru af útgerðum með því að breyta viðmiðum aflaverðmætis í reiknistofni veiðigjalds fyrir síld, kolmunna, makríl, þorsk og ýsu. Þannig muni veiðigjald endurspegla raunverulegt aflaverðmæti og þar með réttlát auðlindagjöld fyrir aðgang að auðlindinni. Einnig eru lagðar til breytingar á frítekjumarki vegna áhrifa frumvarpsins á litlar- og meðalstórar útgerðir. Undirbúningur frumvarpsins mótaðist að miklu leyti af áherslum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar og markmiðum fjármálaáætlunar,“ segir í tilkynningu frá atvinuvegaráðuneytinu.