
Frá vettvangi í gær. Skjáskot úr myndbandsupptöku frá Gísla Björnssyni
Slökktu gróðureld við Selgil í Húsafelli
Í hádeginu í gær barst Slökkviliði Borgarbyggðar tilkynning um að gróðureldur væri laus við Selgil í Húsafelli. Þarna er vinsæl gönguleið og talið líklegt að einhver hafi farið óvarlega með glóandi sígarettu. Fremur torsótt er að þeim stað sem eldurinn logaði. Slökkviliðið er hins vegar búið svokölluðum buggy bílum og reyndust þeir vel á vettvangi að þessu sinni. Þeir komast utan hefðbundinna vega og bera hvor um sig yfir 300 lítra af vatni ásamt öflugum dælum. Vindátt var hagstæð en einnig var afar heppilegt að myndarlega skúr gerði um svipað leyti og slökkvilið var að berjast við eldinn. Slökkvistarf gekk því vel og var lokið um nónbil.