
Svipmynd af fundinum sem haldinn var í Brún á Degi Jarðar. Ljósm. aðsend
Undirbúa stofnun samtaka náttúruunnenda í Borgarfirði
Að undanförnu hefur umræða um umhverfismál og náttúruvernd í Borgarfjarðarhéraði aukist til muna í ljósi nokkuð nýtilkominnar ásóknar fjárfesta í orkuöflun á svæðinu í formi vindorkuvera. Hafa allnokkur slík verið á teikniborði verkfræðistofa að undanförnu. Nýverið kom hópur íbúa á Borgarfjarðarsvæðinu saman í félagsheimilinu Brún í Bæjarsveit til fundar og samtals um þessa þróun og ýmislegt annað er snýr að sjálfbærni, umgengni um náttúruna og farsælli framtíðarsýn fyrir komandi kynslóðir. Boðað var til fundarins á Degi Jarðar, 22. apríl sem er alþjóðlegur dagur helgaður umhverfismálum og fræðslu um þau.