
Grænlenskur karlakór, Söngbræður og Smaladrengir með tónleika í kvöld
Karlakórinn Saqqarsik frá Qaqortoq á Grænland fagnar um þessar mundir 20 ára starfsafmæli. Kórinn samanstendur m.a. af kennurum, skrifstofumönnum, veiðimönnum, verkamönnum og trukkabílstjórum. Stjórnandi kórsins er Angerdla Kielsen-Olsen, sem er þekktur trúbador á Grænlandi. Kórinn syngur tónlist úr ýmsum áttum, allt frá þjóðlögum, kirkjutónlist og dægurlögum m.a. eftir stjórnandann sem útsetur flest lögin sem þeir syngja. Stundum heyrist líka í grænlenskri galdratrommu! Kórinn er rómaður fyrir glaðværð og skemmtilegheit á tónleikum þar sem þeir skýra frá textum og sögum frá Grænlandi.
Qaqortoq er vinabær Akraness og má því segja að þeir séu að koma einskonar opinbera heimsókn. Eftir móttöku í boði bæjarstjórnar Akraness í dag heldur kórinn tónleika klukkan 19:30 í Vinaminni á Akranesi. Þar koma einnig fram Karlakórinn Söngbræður undir stjórn Viðars Guðmundssonar og Karlakórinn Smaladrengir.
