
Rekstur Akraneskaupstaðar í jafnvægi en skuldir að aukast
Ársreikningur Akraneskaupstaðar fyrir 2024 var samþykktur af bæjarstjórn í gær og vísað til síðari umræðu sem fram fer 13. maí. Rekstrarniðurstaða sveitarsjóðs, bæði A og B hluta með fjármagnsliðum og óreglulegum liðum, var jákvæð um 4,5 milljón króna eða nánast á pari við áætlun. Óreglulegir liðir til tekna voru m.a. arðgreiðslur frá hlutdeildarfélögunum Orkuveitu Reykjavíkur og Faxaflóahöfnum. Meðal helstu lykiltalna í reikningunum kemur fram að skuldahlutfall (skuldir/rekstrartekjum) var 113% árið 2024 en var 90% árið 2023. EBITDA framlegð frá rekstri var 2,13% en var 1,66% árið 2023. Veltufé frá rekstri er 5,73% en var 10,06% árið 2023. Eiginfjárhlutfall er nú 40% en var 48% árið 2023. Loks var veltufjárhlutfall 0,95 en var 0,57 árið 2023.