
Vægi ferðaþjónustu er afar misjafnt milli sveitarfélaga
Mikill munur er á vægi ferðaþjónustu eftir sveitarfélögum, eða allt frá því að bera uppi um 1% útsvarstekna þeirra í rúmlega 50% og trónir Mýrdalshreppur þar á toppnum. Meirihluti tekna sveitarfélaga eru eins og kunnugt er útsvarstekjur. Þrjú sveitarfélög á Vesturlandi eru meðal 20 efstu sveitarfélaga að þessu leyti en það eru Eyja- og Miklaholtshreppur, Borgarbyggð og Sveitarfélagið Stykkishólmur. Tilefnið af þessari samantekt eru hugmyndir ríkisstjórnarinnar um hækkun skatta á tilteknar atvinnugreinar og er ferðaþjónustan undir að þessu sinni. Vífill Karlsson hagfræðingur hjá SSV tók þessar upplýsingar saman, en sambærilega samantekt vann hann nýlega þar sem vægi sjávarútvegs; veiða og vinnslu, var skoðaður í hverju sveitarfélagi fyrir sig í ljósi boðaðrar hækkunar veiðigjalds.