
Þyrlusamningur fyrir átta milljarða til sjö ára
Stjórnvöld hafa gengið frá sjö ára samningi við núverandi leigusala um áframhaldandi leigu á þremur þyrlum fyrir Landhelgisgæslu Íslands. „Nýr leigusamningur fyrir björgunarþyrlur Landhelgisgæslu Íslands er ákaflega þýðingarmikill en með honum er viðbragðsgeta Landhelgisgæslunnar til leitar- og björgunar tryggð innan íslensku efnahagslögsögunnar næstu sjö árin hið minnsta. Þyrlurnar hafa gegnt lykilhlutverki við leit og björgun, sjúkraflutninga og almannaöryggi. Það er ljóst að þyrlurnar hafa skipt sköpum við afar krefjandi björgunaraðstæður bæði á sjó og landi,“ segir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra og bendir á að mikilvægi þeirra verði seint vanmetið og þörfin fyrir þær fari sífellt vaxandi.