Fréttir
Byrjunarlið Kára gegn Fylki í Mjólkurbikarnum. Ljósm. Kári

Þrjú lið af Vesturlandi komin í 16-liða úrslit í Mjólkurbikarnum – Dregið í hádeginu

ÍA, Kári og Víkingur Ó. spiluðu um páskahelgina í 32-liða úrslitum Mjólkurbikars karla og eru öll komin í 16-liða úrslit. Kvennalið ÍA varð hins vegar að sætta sig við tap í 1. umferð í Mjólkurbikarnum og er því úr leik.

Víkingur og Kári hófu leik á fimmtudaginn en þau spila bæði í 2. deild á Íslandsmótinu í sumar. Víkingur tók á móti Úlfunum á Ólafsvíkurvelli sem spila í neðstu deild, þeirri fimmtu, og unnu stórsigur, 7-1. Úlfarnir komust reyndar yfir á 9. mínútu með marki frá Kristjáni Ólafi Torfasyni en þegar flautað var til hálfleiks var staðan orðin 5-1 fyrir Víkingi. Fyrirliðinn Ingvar Freyr Þorsteinsson jafnaði á 12. mínútu og þremur mínútum síðar kom Kristófer Áki Hlinason Víkingi yfir. Ellert Gauti Heiðarsson og Björn Darri Ásmundsson skoruðu tvö mörk á tveggja mínútna kafla um miðjan hálfleikinn og Ingvar Freyr skoraði sitt annað mark rétt fyrir hálfleik. Varamaðurinn Ingólfur Sigurðsson bætti síðan tveimur mörkum við í seinni hálfleik, það fyrra kom á 63. mínútu og það seinna sex mínútum fyrir leikslok, lokatölur 7-1 Víkingi í vil.

Þrjú rauð spjöld fóru á loft í höllinni

Í Akraneshöllinni mættust Kári og Lengjudeildarlið Fylkis og var þar um ansi fjöruga viðureign að ræða. Oskar Wasilewski leikmaður Kára varð fyrir því óláni á 19. mínútu að skora sjálfsmark eftir fyrirgjöf og staðan 0-1. Eftir rúman hálftíma leik fékk Ragnar Bragi Sveinsson í liði Fylkis beint rautt spjald eftir tæklingu á Sveini Svavari Hallgrímssyni og var það frekar harður dómur. Á lokamínútu fyrri hálfleiks var Eyþóri Aroni Wöhler einnig vikið af velli þegar hann sló Mána Berg Ellertsson létt utan undir fyrir framan dómarann og Káramenn tveimur fleiri þegar flautað var til hálfleiks. Hektor Bergmann Garðarsson, sem hafði mínútu áður komið inn á sem varamaður, jafnaði leikinn á 65. mínútu þegar hann komst inn fyrir vörn Fylkis eftir frábæra sendingu frá Sigurjóni Loga Bergþórssyni og lagði boltann snyrtilega í netið. Þegar ein mínúta var eftir af leiknum kom sigurmarkið og það var af dýrari gerðinni. Þór Llorens Þórðarson fékk þá boltann fyrir utan vítateiginn, sólaði leikmann Fylkis með góðri gabbhreyfingu og átti hörkuskot að marki sem fór í varnarmann og svo í netið. Fylkismenn fengu síðan þriðja rauða spjaldið á fimmtu mínútu í uppbótartíma þegar Guðmundur Tyrfingsson, sem eins og Eyþór Aron er fyrrum leikmaður ÍA, fékk sitt annað gula spjald eftir pirringsbrot. Lokatölur 2-1 fyrir Kára í ótrúlegum leik og frækinn sigur þeirra rauðklæddu.

Auðvelt hjá Skagamönnum

Á föstudaginn langa tók Grótta, sem spilar í 2. deild, á móti liði ÍA og var viðureignin á Avis vellinum í Laugardalnum. Viktor Jónsson skoraði eina mark fyrri hálfleiks á 38. mínútu og í byrjun seinni hálfleiks bætti Ómar Björn Stefánsson við öðru marki fyrir gestina. Caden Robert McLagan minnkaði muninn fyrir Gróttu á 53. mínútu en aðeins tveimur mínútum síðar skoraði Ómar Björn sitt annað mark og staðan 1-3. Gísli Laxdal Unnarsson kom inn á eftir korters leik í þeim seinni og nokkrum mínútum síðar var hann búinn að gulltryggja öruggan sigur Skagamanna, lokatölur 1-4 fyrir ÍA.

Skagakonur úr leik í Mjólkurbikarnum

Lið ÍA sem vann alla sjö leiki sína í B deild Lengjubikars kvenna og hampaði titlinum varð að sætta sig við fyrsta tapið í vetur þegar þær tóku á móti sameiginlegu liði Grindavíkur og Njarðvíkur í 1. umferð Mjólkurbikarsins á laugardaginn. Eina mark leiksins kom á 30. mínútu og þar var að verki Tinna Hrönn Einarsdóttir fyrir lið gestanna. Skagakonur reyndu hvað þær gátu til að reyna að jafna metin það sem eftir lifði leiks en urðu að sætta sig við fyrsta ósigurinn í vetur og eru úr leik í Mjólkurbikarnum þetta árið. Lokatölur 0-1 og svekkjandi tap hjá ÍA því þær hefðu með sigri mætt liði Keflavíkur í 2. umferð á útivelli en liðin spila bæði í Lengjudeildinni í sumar.

Dregið í hádeginu

Í hádeginu í dag í höfuðstöðvum KSÍ verður dregið í 16-liða úrslit í Mjólkurbikar karla. Í pottinum eru tíu lið úr Bestu deild karla, fjögur lið úr Lengjudeildinni og Kári og Víkingur Ó. úr 2. deild. 16-liða úrslitin verða leikin 14. og 15. maí og spennandi að sjá hvaða andstæðinga liðin þrjú á Vesturlandi fá í drættinum.