Fréttir

Jörvagleði hefst í Dölum á morgun

Hátíðarhöld verða víða í Dölunum á næstu dögum en formleg setning Jörvagleði verður á sumardaginn fyrsta í Dalíu í Búðardal. Á morgun, síðasta vetrardag, verða hins vegar allskyns viðburðir og náði blaðamaður að ræða stuttlega við Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur verkefnastjóra hátíðarinnar. „Menningarnefnd Dalabyggðar kemur að skipulagningu hátíðarinnar ásamt verkefnastjóra. Skipulagið hefur gengið mjög vel og alltaf jafn gaman að sjá hvað heimamenn eru frjóir og uppátækjasamir þegar kemur að því að taka þátt í dagskránni,“ nefnir Jóhanna.

Víða um Dalina verða viðburðir, allt frá Hvammssveit inn í Haukadal. „Dalamenn eru ekki að setja vegalengdir fyrir sig, við erum eitt samfélag. Ef við ætlum að sækja viðburð þá förum við. Það er líka það skemmtilega við hátíð eins og þessa að heimamenn standa fyrir viðburðum víðsvegar um héraðið. Það komast kannski ekki allir á allt en allir ættu að finna sér eitthvað við hæfi og svo er ýmislegt í boði lengur en einn dag,“ nefnir Jóhanna.

Jóhanna segir að íbúar Dalabyggðar séu mjög áhugasamir fyrir hátíðinni. „Það er ekki hægt að halda svona hátíð nema að íbúar hafi áhuga og það sést m.a. í þátttöku í dagskránni. Svo er að fara af stað miðasala á viðburði og miðað við hvað hefur verið spurt mikið út í það, þá efast ég ekki um góða þátttöku og aðsókn á viðburði,“ nefnir Jóhanna.

En geta allir gestir fundið eitthvað við sitt hæfi? „Við reynum alltaf að sjá til þess að allir finni eitthvað við sitt hæfi. Dagskráin tekur mið af börnum jafnt sem fullorðnum. Börnin geta m.a. farið á sýninguna Dimmalimm, tekið þátt í listasmiðju og kynnst lífi barna á Landnámsöld. Stuðpinnar geta fundið ýmislegt í kvölddagskránni þessa daga, svo sem uppistand, tónleika, karókí og trúbador-stemningu. Þau sem vilja meiri fróðleik geta kíkt á fjöldann allan af fyrirlestrum og erindum. Svo ég held að það sé óhætt að segja að þetta sé hátíð fyrir alla fjölskylduna,“ segir Jóhanna María að lokum.

Bent er á að dagskrá Jörvagleðinnar var að finna á opnu í síðasta tölublaði Skessuhorns sem kom út 15. apríl. Einnig er hægt að finna dagskrá hátíðarinnar á dalir.is

Jóhanna María Sigmundsdóttir verkefnastjóri Jörfagleði

Jörvagleði hefst í Dölum á morgun - Skessuhorn