
Gamla íbúðarhúsið í Eskiholti illa farið eftir bruna
Á fjórða tímanum í dag var Slökkvilið Borgarbyggðar kallað út vegna elds í gamla íbúðarhúsinu í Eskiholti 1 í Borgarhreppi. Um þrjátíu manns frá slökkviliðinu börðust við eldinn í tæpar tvær klukkustundir. Húsið er ríflega áttatíu ára gamalt, byggt lýðveldisárið 1944, tveggja hæða og ris. Upptök eldsins má rekja til að unnið var við gluggaskipti í húsinu og hljóp glóð í þurran mó sem húsið var einangrað með í hólf og gólf. Rjúfa þurfti þak hússins til að komast að eldi og reykkafar unnu jafnframt að slökkvistörfum innan dyra. Reyndist þeim torsótt að finna öll eldhreiðrin sem víða leyndust í þaki og millilofti. Um klukkan 17:30 var allur sjáanlegur eldur þó slökktur, en vakt verður við húsið fram á kvöldið að sögn Hreiðars Arnar Jónssonar slökkviliðsstjóra.