
Áskell stingur upp garðinn og Aska fylgist með. Ljósmyndir: mm
Styttist í að pota megi útsæðinu niður
„Það má kallast þjóðlegasti siður, þetta að pota útsæðinu niður, úti í garði, undir morgunsól,“ sungu Lúdó og Stefán hér um árið. Með hækkandi sól eru áhugasömustu kartöfluræktendur þessa lands nú að hefja vorverkin; huga að útsæðinu, stinga eða tæta upp garðinn og gera klárt til að setja niður eftir nokkrar vikur. Nú háttar svo til að lítið eða ekkert frost er í jörðu og því má búast við að garðarnir verði tilbúnir venju fremur snemma. Gömul þumalputtaregla er að setja ekki kartöflur niður fyrr en hitinn í moldinni hefur náð sjö gráðum. Sé það gert áður er í það minnsta nauðsynlegt að breiða akrýldúk yfir til að verma moldina sem mest. Freistist menn til að setja niður í of kaldan jarðveg gerist einfaldlega ekkert fyrstu vikurnar.