
Heimsmeistaramótið í ruslakarli fór fram í Grundarfirði
Það var líf og fjör á gamla netaverkstæði G.Run hf í Grundarfirði á miðvikudagskvöld í liðinni viku. Þá fór fram heimsmeistaramótið í ruslakarli þar sem tuttugu sterkustu spilarar í heimi voru mættir til að etja kappi þangað til einn stæði uppi sem sigurvegari. Unnsteinn Guðmundsson var handhafi heimsmeistaratitilsins síðan 2001 en hefur oft verið sakaður um að hafa unnið hann með grunsamlegum hætti og var því undir sérstöku eftirliti á þessu móti. Það fór svo að Unnsteinn náði ekki að verja titilinn og komst ekki á úrslitaborðið. Það var frændi hans Guðmundur Pálsson sem stóð uppi sem sigurvegari eftir æsispennandi úrslitarimmu við P. Andra Þórðarson sem þurfti að lúta í gras. Í verðlaun var þátttökugjaldið og glæsilegur verðlaunagripur. Það fylgdi þó kvöð með verðlaunafénu en það átti að nota til að merkja bikarinn nýjum heimsmeistara.