
Leki kom að fiskibáti norðvestan við Akranes
Á þriðja tímanum í dag var sjóbjörgunarflokkur Björgunarfélags Akraness kallaður út á hæsta forgangi. Leki hafði komið upp í báti sem staddur var á veiðum um tvær sjómílur norðvestan við Slippinn við Krókalón á Akranesi. Þá var þyrla Landhelgisgæslunnar einnig kölluð út eins og jafnan þegar svona hendir. Aðstoð þyrlunnar var afturkölluð þegar sýnt þótti að hætta væri liðin hjá. Skipverjar voru tveir og tókst þeim að stöðva lekann skömmu áður en björgunarskipið Jón Gunnlaugsson og áhöfn þess kom að bátnum. Var báturinn tekinn í tog til Akraneshafnar. Engan sakaði.
Þess má geta að ekki reyndist unnt að sjósetja harðbotna björgunarbát Björgunarfélagsins, Margréti Guðbrandsdóttur, vegna aðstöðuleysis í Akraneshöfn, en háfjara var þegar óhappið átti sér stað.