Fréttir

Fjölbreytt dagskrá í Hallgrímskirkju í Dymbilviku

Eins og oft áður verða vandaðir viðburðir í Hallgrímskirkju í Saurbæ í Dymbilviku. „Dagskráin gæti höfðað til fólks út fyrir söfnuðinn enda margir sem við fáum til liðs við okkur,“ segir Margrét Bóasdóttir í Saurbæ. „Þannig munu 26 lesarar flytja Passíusálmana á föstudaginn langa; yfirleitt tvo sálma á mann, en auk þess verður tveimur sálmum skipt í tvennt og þeir lesnir á þeim fjórum tungumálum sem til eru þýðingar; enska, danska, þýska og ungverska. Og það er fólk frá viðkomandi löndum sem les, en ekki landsmenn að spreyta sig á erlendum tungum. Einnig verður 25. passíusálmur - miðja verksins sem endar á erindinu „Son Guðs ertu með sanni,“ lesin úti við minningarstein Hallgríms og Guðríðar í kirkjugarðinum,“ segir Margrét.

„Viðeigandi tónlist verður flutt milli lestra í sex skipti: Biskup Íslands les fyrsta sálm og Kór Saurbæjarprestakalls syngur sálma Hallgríms. Þess má geta að organistinn, Zsuzsanna Budai er ungversk, svo það eru hæg heimatökin að hlýða á Passíusálm á ungversku! Við verðum með bækur - á íslensku- svo fólk getur tekið bók og fylgst með lestrinum, og það má koma og fara eftir vild þennan tíma frá kl. 13.00 til 18.15. Svo verður stutt bæna- og íhugunardagskrá á hverjum degi frá og með Pálmasunnudegi,“ segir Margrét og endað með göngumessu á annan dag páska.

Dagskráin í Hallgrímskirkju í Saurbæ:

Frá Betaníu til Emmaus – helgistund alla daga dymbilviku kl. 18 Sr. Kristján Valur Ingólfsson leiðir helgistundir

Pálmasunnudagur 13. apríl

Kl. 18 Íhugun um smurninguna í Betaníu

Mánudagur 14. apríl

Kl. 18 Íhugun um iðrun og fyrirgefningu

Þriðjudagur 15. apríl

Kl. 18 Íhugun um vatnið og skírnina

Miðvikudagur 16. apríl

Kl. 18 Íhugun um krossferilinn og upprisuna

Skírdagur 17. apríl

Kl. 16 Skírdagstónleikar – María Konráðsdóttir sópran, Sólveig Thoroddsen barokkhörpuleikari og Sergio Coto lútuleikari flytja fagra tónlist frá barokktímanum. Kl. 18 Íhugun um heilaga kvöldmáltíð

Föstudagurinn langi 18. apríl

Kl. 13 Passíusálmar Hallgríms Péturssonar lesnir – Biskup Íslands, Guðrún Karls Helgudóttir les fyrsta sálm og Kór Saurbæjarprestakalls syngur lög við sálma Hallgríms undir stjórn Zsuzsönnu Budai, organista. Kórinn flytur m.a. sálma eftir tónskáldin Eygló Höskuldsdóttur Viborg og Högna Egilsson sem samdir voru sérstaklega fyrir 350 ára minningarhátíð Hallgríms Péturssonar, síðastliðið haust. Milli lestra flytja þau Sólveig Thoroddsen, hörpuleikari og Sergio Coto lútuleikari tónlist frá erlendum samtímamönnum Hallgríms. Lestrinum lýkur um kl. 18:15, hægt er að koma og fara að vild.

Laugardagur 19. apríl

Kl. 18 Jesús dvelur í gröf sinni. Hugleiðing og bænir. Kl. 23 Páskanæturmessa

Páskadagur 20. apríl

Kl. 08 Árdegismessa – Kór Saurbæjarprestakalls syngur, organisti Zsuzsanna Budai, sr Þráinn Haraldsson predikar og þjónar fyrir altari. Messukaffi í prestssetrinu.

Annar dagur páska 21. apríl

Kl. 14 Guðsþjónusta með Emmaus-göngu að Hallgrímssteini.

Fjölbreytt dagskrá í Hallgrímskirkju í Dymbilviku - Skessuhorn