
Virkilega skemmtilegt verkefni
Rætt við Önnu Maríu Sigurðardóttur og Gunnar Smára Sigurjónsson úr Gauragangi
Sýningum á söngleiknum Gauragangi sem sýndur var í Bíóhöllinni undanfarinn hálfan mánuð lauk síðasta fimmtudag fyrir nánast fullu húsi. Leiklistarklúbburinn Melló í FVA sýndi alls tíu sýningar og hefur slegið í gegn með þessari fjörmiklu sýningu. Blaðamaður Skessuhorns hitti að máli í vikunni sem leið þau Gunnar Smára Sigurjónsson og Önnu Maríu Sigurðardóttur sem leika Orm og Lindu í leikritinu. Þau tóku einnig þátt í söngleikjunum Hlið við hlið og Grease sem sýnd voru síðustu tvö ár á vegum FVA í Bíóhöllinni og eru því reynslunni ríkari í leikhúsinu. Það mátti sjá á þeim í hittingnum að þau voru örlítið þreytt eftir langar og strangar æfingar síðustu mánuði og svo tíu sýningar á stuttum tíma en voru þó til í smá spjall.
Hvenær fenguð þið fyrst áhuga á leiklist? Gunnar Smári segir að það hafi verið þegar hann var í tíunda bekk í Grundaskóla. „Ég tók þátt í söngleik sem heitir Hunangsflugur og villikettir. Það var geggjað gaman en þar lék ég Bóbó og fékk mjög góð viðbrögð. Ég hugsaði: Þetta gæti verið skemmtilegt og svo prófaði ég þetta aftur þegar ég fór í FVA í Hlið við hlið og Grease og það var enn skemmtilegra.“ Anna María fékk áhuga þegar hún var á yngsta stigi í Grundaskóla. „Þegar stórar leiksýningar voru settar upp í Bíóhöllinni þá fannst mér alltaf alveg geggjað að fara að sjá þær. Ég fór mörgum sinnum á hverja sýningu og þá var ég alltaf föst á því að ég ætlaði að taka þátt í einhverju svona seinna meir.“
Góð reynsla
Nú tókuð þið bæði þátt í söngleikjunum Hlið við hlið og Grease sem FVA sýndi í fyrra og hittifyrra. Hvernig var sú reynsla og hjálpaði hún ykkur á einhvern hátt í Gauragangi? „Hún var mjög góð, segir Gunnar Smári, og kenndi manni margt. Bæði leikritin gengu mjög vel, það var eiginlega uppselt á allar sýningar og mjög skemmtilegir hópar sem tóku þátt. Það fékk mig til að taka þátt í ár og ekki skemmdi fyrir að ég fékk aðalhlutverkið.“ Anna María er sammála því að það hafi verið góð reynsla og gaf henni mjög mikið. „Maður var frekar stressaður busi í Hlið við hlið en það hjálpaði held ég mjög mikið með félagslífið því ég kynntist fullt af skemmtilegu fólki. Reynslan hjálpaði í Gauragangi, ég vissi svona nokkurn veginn hvað ég væri að fara út í og hvernig þetta virkar.“
Alveg þess virði
Þau eru sammála því að það sé tímafrekt að taka þátt í svona sýningu með náminu og þau hafi minni tíma til að læra á meðan á þessu stendur. En er þetta þess virði? Gunnar Smári svarar því. „Maður hefur eiginlega þurft að setja námið til hliðar á meðan á ferlinu stóð og þegar mest var að gera í leikritinu. Þá þurfti maður að sleppa nokkrum verkefnum í náminu. Þetta gæti haft smá áhrif á einkunnirnar en ekki til að hafa miklar áhyggjur af. Þetta er miklu meiri reynsla sem maður fær út úr þessu en úr skólanum að mínu mati.“ Anna María bætir við: „Þetta er alveg mjög krefjandi og tekur mikið á. Maður nær voðalega lítið að læra en kennararnir eru mjög skilningsríkir. En já, þetta er mjög mikið þess virði, þetta gefur manni alls konar og maður lærir svo margt á þessu ferli.“
Kynnast fullt af fólki
En hvað er það skemmtilegasta við að taka þátt í svona sýningu? „Það skemmtilegasta, segir Anna María, er að kynnast fólkinu og hvað hópurinn verður alltaf náinn. Það erfiðasta er þegar við erum búin að vera að æfa og æfa og orðin vel þreytt eftir stífar æfingar frá kannski fimm til ellefu á kvöldin. En á sama tíma er það gaman af því hópurinn er svo skemmtilegur.“ Gunnar Smári nefnir einnig að í svona verkefni kynnist fullt af fólki sem myndi kannski aldrei kynnast annars og það sé mjög gaman. Þá var hópurinn mjög þéttur og stóð virkilega vel saman í þessu verkefni. Kviknuðu einhverjir neistar? Anna María segist ekkert kannast við það en Gunnar Smári er á öðru máli. „Það gerðist örugglega eitthvað sem má ekki segja frá og maður tók alveg eftir því. Það er bara gaman að því og það er örugglega algengt að það geti gerst þegar fólk vinnur svona náið saman í langan tíma.“
Erfiður texti en mjög skemmtilegur
Gunnar Smári, nú ert þú á sviðinu nánast allan tímann. Hvernig gekk það? „Það var frekar erfitt fyrst. Ég átti í smá erfiðleikum með að muna hvað væri næst til að byrja með á æfingunum og var tæpur á því. En svo fór ég yfir þetta mörg hundruð sinnum heima hvað væri næst, hvar ég ætti að koma út af sviðinu og svo inn aftur eftir kannski tíu sekúndur. Það erfiðasta var hvað þetta gat verið þreytandi og ég var stundum alveg búinn á því eftir æfingar og sýningar en á sama tíma var þetta ótrúlega gaman.“ En hvernig gekk að læra textann? „Mjög illa, þetta er náttúrlega mjög erfiður texti en mjög skemmtilegur. Ég er að æfa fótbolta með 2. flokki ÍA og ég var að reyna að halda mér í formi á meðan. Þá fór ég bara á hlaupahjólið í ræktinni og var að lesa handritið yfir á meðan. Textinn er frekar erfiður, það er fullt af svona tungubrjótum sem maður átti erfiðast með. Ljóð og margt annað sem maður náði ekki og það fór mikill tími í það en þetta tókst að lokum.“
Hvísl undir sænginni
Nú leikið þið tvö saman í atriði þar sem náin kynni eiga sér stað uppi í rúmi heima hjá Lindu. Hvernig er að leika í svona atriði? Anna María segir að það hafi verið erfitt fyrst en svo fari þau bara í karakter. Þau voru búin að æfa þetta svo oft þannig að þetta var ekkert mál á sviðinu og svo er þetta náttúrlega bara leikrit. Gunnar Smári er sammála því. „Þetta er eiginlega alveg eins og önnur atriði. Út af því að það gerist svo sem ekkert. Við erum bara í myrkrinu og undir sæng. Þetta var samt alveg stressandi fyrst af því maður vissi ekkert hvað maður var að fara út í. Við náðum að vinna vel saman að þessu og þetta gekk vel.“ Eruð þið ekkert að spjalla saman undir sænginni? „Við hvíslum alveg smá og svo koma þarna einhverjar stunur sem við búum til sem er bara fyndið,“ segja þau og hlæja við tilhugsunina.
Reif ávísunina óvart í sundur
Komu upp einhver skemmtileg atvik eða neyðarleg á æfingatímanum eða í sýningum? „Það eru alltaf einhverjir góðir brandarar í gangi, segir Gunnar Smári, en leiðinlegast var þegar Gígja Kristný slasaðist og missti af því að leika í sýningunni. Það voru reyndar mjög margir að detta í stigunum og það var oft fyndið. Það er einhver bölvun á þessum stigum, stiginn sem fer niður í búningsklefann er mjög brattur og margir sem duttu niður þar. Svo er annar sem fer upp á efri hæðina og það duttu nokkrir í honum á leiðinni niður en það sluppu allir vel þrátt fyrir allt brasið.“ Anna María segir að þetta hafi sloppið nokkuð vel. „Auðvitað eru alltaf einhver mistök sem við leikhópurinn tökum eftir og hlæjum af saman. Eins og á sýningu um daginn þegar Elli reif ávísunina óvart í sundur, það var mjög fyndið.“
Þykir vænt um verkin sín
Nú hefur Einar Viðarsson leikstýrt ykkur báðum, bæði í Grundaskóla og FVA. Hvernig er að vinna með honum? Þau eru sammála því að hann sé geggjaður leikstjóri. „Við hlustum alltaf á hann og treystum honum fullkomlega fyrir þessu. Maður veit að hann hjálpar manni á allan hátt. Hann gerir allt vel eins og sést, leiksýningarnar sem hann setur upp ganga alltaf mjög vel og það er gaman að vinna með honum.“ Er hann kröfuharður leikstjóri? „Hann er það svo sannarlega en samt sem áður er hann sanngjarn. Hann tekur mjög mikinn tíma í þetta og það sést vel hvað honum þykir vænt um verkin sín. Hann mætir á allar sýningar þótt hann sé ekki ráðinn í það. Bara til að halda okkur á tánum og sjá til þess að við stöndum okkur.“

Fínt fyrir egóið
Mynduð þið mæla með þessu, að taka þátt í svona leiksýningu eins og þessari? „Klárlega,“ segir Gunnar Smári. „Þetta er það langskemmtilegasta við skólagönguna. Eftir tuttugu ár þá man ég ekki eftir því hvað ég var að gera í stærðfræðinni, heldur miklu frekar hvað ég var að gera í félagslífinu.“ Nú gekk Grease þrusuvel í fyrra og Gauragangur hefur einnig slegið í gegn í ár. Finnið þið fyrir þessu á Skaganum, eruð þið umsetin af ungum og æstum aðdáendum? Anna María segir að hún verði nú ekki mikið vör við það en auðvitað koma krakkar að taka mynd eftir sýningu með þeim og það sé ótrúlega gaman. „Ég er alltaf að heyra það að stelpur í fyrsta bekk í grunnskóla séu skotnar í mér og það er gaman að því. Svo fer maður út í búð og fær hrós, það kemur alveg fyrir. Ég er líka lengi eftir hverja sýningu að spjalla og fara í myndatökur. Það er skemmtilegt og fínt fyrir egóið!“ segir Gunnar Smári og glottir.

Óljóst hvað tekur við
Þau útskrifast bæði í vor frá FVA, Gunnar Smári af íþrótta- og heilsubraut og Anna María af opinni stúdentsbraut á íþrótta- og heilsusviði. Hvað tekur við? Hafið þið einhvern hug á að starfa við leiklist eða söng á næstunni? Gunnar Smári ætlar að reyna að komast í leikaranám í Listaháskóla Íslands. „Ég sótti um síðasta haust, ég komst ekki inn en ætla að reyna aftur við það. Svo er ég með Plan B að fara í nám til Bandaríkjanna og læra tómstunda- og félagsfræði. Ég ætla að reyna að komast á fótboltastyrk en tíminn verður að leiða í ljós hvað gerist.“ Anna María er í öðrum hugleiðingum og þó henni finnist gaman að syngja og leika þá er hún ekki með nein plön í þá veruna. „Mig hefur alltaf langað til að vera flugmaður en einnig hefur sálfræði og allt sem tengist börnum heillað mig upp á síðkastið. Ég er því ekki alveg búin að ákveða hvert ég stefni,“ segir hún.
En svona í lokin, hvað á að gera af sér í páskafríinu? Anna María ætlar að fara upp í bústað með kærastanum og hundinum sínum og svo vinna eitthvað en Gunnar Smári ætlar aðallega að slaka á. „Ég nenni ekki að fara neitt þessa páskana, ég er frekar þreyttur eftir alla þessa törn og ætla að hvíla mig vel.“