
Með stöðuleyfi fyrir matarvagni á Akranesi
Alexandra Sineenard Prangsri opnaði árið 2015 veitingastaðinn Thai Santi við Stillholt 23 á Akranesi. Eftir þrjú ár var staðnum lokað. Nú hefur Alexandra fengið stöðuleyfi fyrir Thai Seri matarbíl við Akratorg og gildir það til 30. júní. Eftir það ætlar hún að sjá til með framhaldið en verður örugglega með sölu á Írskum dögum.
Í Thai Seri matarbíl verður opið öll kvöld frá klukkan 16-20 en lengur um helgar. Alexandra stendur sjálf vaktina ásamt eiginmanni sínum Set Thongpandee, en bæði eru þau frá Thailandi. Hún flutti hingað til lands 1998 en Set kom hingað til lands fyrir fjórum árum. Þau verða með til sölu asískan mat; svo sem núðlur, rækjur, kjúkling, eggjanúðlur og vorrúllur. Á matseðli er auk þess hægt að velja úr ýmsum tilboðum sem henta fjölskyldustærð viðkomandi. „Um helgar ætla ég svo að bjóða upp á fleiri rétti, svo sem súpu, kjúklingakarrírétt, nautakjöt með ostrusósu og fleira,“ segir Alexandra.



