
Hluti starfsfólks ásamt þeim Óttari og Bjarka frá Jörfa ehf. Ljósm. mm
Jörfi ehf færði starfsfólki Fjöliðjunnar páskaglaðning
Jörfi ehf. Pípu- og véltækniþjónusta við Nesflóa 1 á Akranesi hóf eins og kunnugt er starfsemi á Akranesi fyrr á þessu ári. Að sögn Óttars Þórs Ágústssonar framkvæmdastjóra hefur reksturinn gengið vel það sem af er og verkefnastaða er mjög góð. Fyrirtækið ákvað nú í aðdraganda páska að láta gott af sér leiða. Mættu eigendur fyrirtækisins í Fjöliðjuna, vinnu- og hæfingarstað og gáfu öllu starfsfólki þar myndarleg páskaegg. Þetta gerir Jörfi í samstarfi við Ísrör ehf. Blaðamaður Skessuhorns leit við þegar hluti hópsins fékk eggin sín afhent. Var almenn ánægja með þessa fallegu gjöf en þetta mun vera í fyrsta skipti sem starfsfólki Fjöliðjunnar eru gefin páskaegg.