
Árshátíð Grunnskóla Grundarfjarðar var glæsileg
Síðasta vikan fyrir páskafrí er jafnan skemmtileg í skólum landsins og þar var engin undantekning í Grundarfirði. Krakkarnir hafa undanfarnar vikur verið að undirbúa árshátíðina sem fór svo fram síðasta fimmtudag. Krakkarnir á Eldhömrum voru með glæsilegt söngatriði áður en börnin af yngsta stiginu settu upp skemmtilega leiksýningu þar sem Emil í Kattholti hittir Línu Langsokk. Nemendur í 8. bekk voru með myndbandsbrandara á milli atriða þar sem þeir endurgerðu skemmtilega brandara úr Heilsubælinu í Gervahverfi. Nemendur úr 6. og 7. bekk fluttu tvö lög úr sýningunni Fíasól og það voru svo nemendur úr 5. bekk sem lokuðu sýningunni með skemmtilegu atriði sem kallaðist Grundó got talent. Það fara því allir þreyttir og sælir í kærkomið páskafrí eftir helgi.