Fréttir
Svipmynd af fundinum á Hótel Hamri. Ljósm. mm

Fjölmenni á fundi atvinnuvegaráðherra með bændum

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra og stjórn Bændasamtaka Íslands luku í gærkvöldi sjö funda ferð um landið með fjölmennum fundi á Hótel Hamri í Borgarnesi. Um 150 manns mættu og fylltu of lítinn sal sem ætlaður var fyrir samkomuna. Tilgangurinn fundarins var að bjóða bændum til samtals um áskoranir og lausnir í landbúnaði. Búvörusamningar renna sitt skeið í árslok 2026 og ljóst að kallað er eftir breytingum og aukinni innspýtingu stjórnvalda meðal annars til að auðvelda nýliðun í landbúnaði og almennt að bæta kjör bænda. „Áskoranir eru margar í landbúnaði í dag, ekki einungis á Íslandi heldur einnig í því alþjóðasamfélagi sem við tilheyrum,“ sagði Hanna Katrín í ávarpi sínu og vísaði til þess að af þeim sökum væri brýnt fyrir nýja ríkisstjórn að finna raunhæfar lausnir til að efla hag íslensks landbúnaðar. Ekki síst sagðist hún mætt til fundar við bændur til að heyra án milliliða raddir þeirra og áherslumál. Fundurinn reyndist afar málefnalegur og bændur komu á framfæri sjónarmiðum sínum með mörgum góðum ræðum og innleggjum. Gáfu þeir ráðherra þannig gott vegarnesti inn í starf sitt fyrir atvinnugreinina.

Fjölmenni á fundi atvinnuvegaráðherra með bændum - Skessuhorn