
Kvöldstund á 78 snúningum
Þriðjudaginn 15. apríl kl. 20 mun Trausti Jónsson veðurfræðingur og lífskúnstner og tónskáldið Ingi Garðar Erlendsson leiða gesti á Sögulofti Landnámsseturs í Borgarnesi inn í heim 78 snúninganna. „Hver man eftir 78 snúninga plötunum? Ekki margir. Og hverjir hafa hlustað á tónlist af 78 snúninga plötum? Heldur ekki margir. Þeir munu ræða um íslensku 78-snúninga hljómplötuna, með tóndæmum, allt frá þeirri elstu - til þeirrar síðustu. Við sögu koma einsöngvarar, kórar og auðvitað dægurtónlist eins og hún var og hét. Hverjar voru vinsælustu plöturnar - og vinsælustu listamennirnir? Hvaða plötur hafa alveg týnst og finnast ekki,“ segir í tilkynningu um viðburðinn.