
Héraðsþing HSH var haldið í Grundarfirði
Héraðssamband Snæfells- og Hnappadalssýslu hélt 84. héraðsþing sitt í Samkomuhúsi Grundarfjarðar í gær. Þar var farið yfir árskýrslu og ársreikninga áður en veittar voru viðurkenningar. Fyrstur steig Hafsteinn Pálsson formaður heiðursráðs ÍSÍ í pontu og veitti þeim Jóni Pétri Péturssyni frá Skotgrund og Ólafi Tryggvasyni frá hesteigendafélaginu Snæfellingi silfurmerki ÍSÍ og svo var Tryggvi Gunnarsson sæmdur gullmerki ÍSÍ fyrir störf í þágu Hesteigendafélags Snæfellings. Að því loknu mætti Guðmundur G. Sigurbergsson gjaldkeri UMFÍ í pontu og sæmdi þau Kristján Ríkharðsson frá Víkingi Ólafsvík og Sigríði Guðbjörgu Arnardóttur frá UMFG starfsmerki UMFÍ áður en Gunnar Kristjánsson frá UMFG var sæmdur gullmerki UMFÍ. Að lokum mætti Hjörleifur Kristinn Hjörleifsson formaður HSH og heiðraði þá Garðar Svansson, Hall Pálsson og Gunnar Kristjánsson með nýju heiðursmerki Héraðssambandsins sem kallast HSH gull. Eftir stutt matarhlé hélt þinghald áfram með hefðbundnum nefndastörfum.