
Jörð skalf rétt fyrir klukkan 17
Tveir jarðskjálftar af stærðinni um fimm stig, sem áttu upptök sín við Reykjanestá, urðu laust fyrir klukkan fimm í dag. Fundust skjálftarnir mjög vel m.a. á höfuðborgarsvæðinu, á Akranesi, í Borgarnesi og upp um Borgarfjörð, meðal annars í Skorradal og Reykholtsdal. Vísindamenn telja líklegt að hér sé um svokallaða gikkskjálfta að ræða vegna spennubreytinga í jarðskorpunni.
Hundruðir skjálfta hafa mælst frá því snemma í morgun, þegar kvika var að brjóta sér leið ofar í jarðskorpuna. Á meðfylgjandi mynd sem er skjáskot af jarðskjálftavef Veðurstofunnar má sjá fjölda þeirra frá því klukkan 6:30 í morgun. Óstaðfestar tölur fyrir skjálftann klukkan 16:55 í dag segja að hann hafi verið 5,3 stig.