
Atli í toppbaráttunni á sínu fyrsta spilakvöldi í bridds
Nýliðun er nauðsynleg í öllum félögum ætli þau að halda velli til lengri tíma. Það var því ánægjulegt í gærkvöldi þegar þrjú ungmenni settust í fyrsta sinn við spilaborðið í Logalandi þegar Bridgefélag Borgarfjarðar hélt vikulega keppni sína í tvímenningi. Helgina áður hafði Ingimundur Jónsson, driffjöðrin í starfi félagsins, haldið námskeið á Kleppjárnsreykjum þar sem hann fór yfir helstu reglur; punktatalningu, sagnkerfi, útspil og köll - og æfði með hópi ungmenna. Þrjú þeirra létu svo vaða til þátttöku í sínu fyrsta keppnisbriddsi. Þetta voru þau Kristín Eir Hauksdóttir Holaker, Baldur Karl Andrason og Atli Jónsson. Vanir spilarar tóku ungmennin að sér sem makkerar. Baldur Björnsson spilaði við dótturson sinn Baldur Karl; Anna Heiða Baldursdóttir landsliðskona í bridds spilaði við Kristínu Eir og Atli spilaði við föður sinn Jón Eyjólfsson. Keppni kvöldsins var eins og hefðbundið er, en Ingimundur leiðbeindi nýluðunum eins og þurfti meðan þeir voru að stíga sín fyrstu skref við spilaborðið. Spilað var á tíu borðum með þátttöku 21 pars.