Íþróttir
Erna Björt og Erla Karitas hafa verið á skotskónum í Lengjubikarnum. Ebba skorað fjögur mörk og Kaja átta mörk af 21 marki ÍA í sex leikjum. Ljósm. vaks

Skagakonur Lengjubikarsmeistarar 2025

Grindavík/Njarðvík og ÍA mættust í gær í næstsíðustu umferð í B deild Lengjubikars kvenna í knattspyrnu og var leikurinn í Nettóhöllinni í Reykjanesbæ. Skagakonur höfðu unnið alla fimm leiki sína til þessa og gátu með jafntefli eða sigri tryggt sér sigur í deildinni.

Skagakonur byrjuðu leikinn ágætlega og sköpuðu sér nokkur hálffæri án þess að ná að skora. Fyrsta mark leiksins kom á 16. mínútu þegar Tinna Hrönn Einarsdóttir fékk sendingu inn fyrir vörn ÍA og kláraði færið sitt vel. Þetta slökkti alveg á Skagakonum og heimakonur bættu við tveimur mörkum í kjölfarið. Fyrst skoraði Eydís María Waagfjörð eftir rúman hálftíma leik og síðan Ása Björg Einarsdóttir á 42. mínútu. ÍA náði að minnka muninn á lokamínútu fyrri hálfleiks þegar Erla Karitas Jóhannesdóttir skoraði eftir hornspyrnu. Hún fékk boltann fyrir utan teig og setti hann snyrtilega í fjærhornið. Staðan 3-1 í hálfleik og ljóst að gestirnir gátu komið til baka eftir frekar slaka frammistöðu til þessa í leiknum.

Júlía Rán Bjarnadóttir leikmaður G/N varð svo fyrir því óláni á 53. mínútu að skora sjálfsmark þegar hún ætlaði að hreinsa boltann í burtu en setti hann í eigið mark. Skagakonur náðu síðan að jafna átta mínútum fyrir leikslok þegar hin 14 ára Nadía Steinunn Elíasdóttir, sem hafði komið inn á stuttu áður, fékk boltann fyrir utan teig. Hún setti hann með vinstri fæti upp í samskeytin og inn, glæsilega gert hjá þessari ungu og efnilegu knattspyrnukonu. Staðan 3-3 og fjörið alls ekki búið. Tveimur mínútum fyrir leikslok skallaði Selma Dögg Þorsteinsdóttir knöttinn inn í teig og fór hann í kviðinn á Eydísi Maríu og inn í markið. Grátlegt fyrir heimakonur en að sama skapi ánægjulegt fyrir gestina sem fögnuðu titlinum vel í leikslok.

Síðasti leikur ÍA í deildinni verður næsta laugardag á móti ÍBV. Hann fer fram í Akraneshöllinni og hefst klukkan 14.

Skagakonur Lengjubikarsmeistarar 2025 - Skessuhorn