
Nýbygging við íþróttahúsið verður norðan við það þar sem nú er bílastæði og þá verður húsið við Þorsteinsgötu 5 rifið. Ljósm. mm
Hefja undirbúning að stækkun íþróttahúss samhliða byggingu fjölnota húss
Það er skammt stórra högga á milli hjá sveitarfélaginu Borgarbyggð hvað snertir byggingu íþróttamannvirkja. Nýverið var fyrsta skóflustungan tekin að nýju fjölnota íþróttahúsi við Skallagrímsvöll í Borgarnesi og framkvæmdir við það að hefjast. Áætlað er að framkvæmdum ljúki haustið 2026. En það verður ekki eina verkefnið á svæðinu. Síðastliðinn fimmtudag samþykkti byggðarráð að fela byggingarnefnd íþróttamannvirkja að hefja undirbúning að hönnun og skipulagi viðbyggingar við Íþróttahúsið í Borgarnesi þar sem til stendur að byggja íþróttasal, svokallað parkethús.