
Ansi vel gerður Gauragangur í Bíóhöllinni
Leiklistarklúbburinn Melló í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi frumsýndi söngleikinn Gauragang síðasta föstudag í Bíóhöllinni. Unglingasagan Gauragangur eftir Ólaf Hauk Símonarson kom út árið 1988 og sjálfstætt framhald sögunnar, Meiri gauragangur, kom svo út þremur árum síðar. Eins og fram kemur í veglegri leikskrá Melló fjallar Gauragangur um Orm Óðinsson sem er 16 ára og rétt að klára grunnskólann. Hann er að sjálfsögðu snillingur og töffari en það þýðir ekki endilega að allt hans líf sé í góðum gír. Vinir, hugsjónir, fjölskylda, skoðanir, ljóð, óvinir, skóli og ást. Allt blandast þetta saman og flækist hvað fyrir öðru í tvísýnu spili um hug hans og hjarta.
Blaðamaður Skessuhorns fór á forsýningu Gauragangs síðasta fimmtudagskvöld og um er að ræða fjöruga og frábæra sýningu. Hún er næstum þrír tímar að lengd en manni leiðist aldrei enda er sýningin uppfull af skemmtilegum lögum og frábærum dansatriðum. Gunnar Smári Sigurjónsson leikur Orm Óðinsson af miklum móð og lifir sig vel inn í hlutverkið. Það mæðir mikið á honum alla sýninguna enda er hann á sviðinu nánast allan tímann. Hann túlkar Orm mjög vel, er átakalaus í leik sínum og að öllum ólöstuðum stjarna sýningarinnar. Anna María Sigurðardóttir leikur Lindu sem Ormur er að eltast við og hún gerir vel í leik og söng, þó sérstaklega í söngnum þar sem hún slær ekki feilnótu. Vini Orms, Ranúr og Höllu, leika þau Tristan Sölvi Jóhannsson og Magnea Sindradóttir og þau eru á sömu nótum, stíga ekki feilspor og eru mjög örugg í leik sínum.
Aukaleikararnir eru svo af ýmsum toga og margir eftirminnilegir. Aldís Ósk Arnardóttir leikur Ástu sem er systir Orms og er misþroska. Aldís Ósk fer vel og varfærnislega með hlutverk hennar án þess að freistast til þess að gera hana of kjánalega. Ísólfur Rúnarsson fer á kostum sem leikfimiskennarinn Gummi og smellpassar í hlutverkið. Ólafur Kristinn Bragason leikur gamla fornbókasalann Hreiðar af mikilli innlifun og Kristrúnu á efri hæðinni leikur Stefanía Ottesen. Hún lét vel í sér heyra og kitlaði hláturtaugar áhorfenda í hvert skipti sem hún birtist öskrandi og kvartandi um kött Hreiðars og öðru því tengt.
Dansatriðin í sýningunni eru mjög vel útfærð og fjörug og oft er eins og um atvinnudansara sé að ræða. Í laginu Hreystikallið sem er síðasta lag fyrir hlé fara dansararnir á kostum í áhrifaríku atriði klæddir eldrauðum íþróttabúningum og einnig í laginu Skál fyrir Þorláki þar sem jólaandinn svífur yfir vötnum. Tónlistin í sýningunni, sem samin er af Nýdönsk, hjálpar síðan til að upplifunin verði enn betri og ekki vitlaust að renna henni í gegn nokkrum sinnum fyrir sýningu. Þá má einnig nefna búningana i sýningunni þar sem gamlir íþróttagallar fá oft nýtt líf í frísklegum litum og henta eflaust mjög vel þar sem stiginn er trylltur dans.
Niðurstaðan er löng en ekki langdregin sýning. Hún er uppfull af góðum leik, kröftugum söng og dúndur dansatriðum sem ætti að virka fyrir alla unglinga á hvaða aldri sem þeir eru. Enn og aftur sýnir Einar Viðarsson leikstjóri og hans teymi snilli sína í leikhúsinu og virkilega gaman að sjá eldmóðinn hjá leikurum og öllum þeim sem koma að sýningunni. Þá er bara næsta skref að bregða sér af bæ og beint í Bíóhöllina á Gauragang. Til lukku FVA!
vaks
